Um Landupplýsingalæsi
Fræðasvið staðsetningar
Höfundur alls efnis er Elín Guðmundsdóttir, náttúrufræðingur. Elín hefur meiri hluta starfsferils síns starfað á sviði landupplýsinga, gróðurkortagerðar og umhverfisvöktunar. Nú er hún sjálfstætt starfandi.
Landupplýsingar (LUK, e. GIS, Geographic Information Systems) er þverfaglegt svið sem nýtist jafnt í náttúrufræðikennslu, landafræði, sagnfræði, samfélagsfræði eða tungumálakennslu. Það má nýta á margan hátt og jafnframt fræða börn og ungmenni um fjölbreytileika á ýmsum sviðum, aðstoða þau við framsetningu gagna á nýstárlegan hátt og hjálpar jafnframt kennurum að nýta landupplýsingar til myndrænnar og skapandi framsetningar á gögnum.
Námsefnið styður við örvandi kennsluhætti á sviði list- og verkgreina með skapandi verkefnum á hinum fjölbreyttu sviðum námsefnis, skapandi framsetningu og tækifæri til framsetningar á fjölbreyttum verkefnum á skapandi og listrænan hátt sem getur fangað athygli viðtakanda á nýstárlegan hátt. Námsgögnin styðja við náms- og starfsfræðslu með tillögum fyrir kennara að framsetningu námsefnis og gerð verkefna á hátt sem ekki hefur verið nýttur að miklu leyti hér á landi. Námsefnið opnar jafnframt tækifæri til að útbúa gagnagrunn sem nýtist kennurum og nemendum til framtíðar, endurnýjun gagnagrunns samkvæmt nýjustu uppfærslum og tækni.
Námsgögnin miða að markvissri eflingu íslensks orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum námsgreinum með fjölbreyttu námsefni og framsetningu þess. Þverfagleg nálgun á Landupplýsingalæsi hefur ekki verið gefin út áður hér á landi.
Námsgögnin byggja á Hugsmíðahyggju þar sem verkefnin byggja á því að nemendur geti rannsakað hugmyndir sínar byggðar á raunverulegum gögnum og æft sig þannig í gagnrýnni hugsun, vísindalæsi og landupplýsingalæsi. Nemendur geta annað hvort unnið sjálfstætt að verkefnum og rannsóknum sem þau leggja út í, eða unnið samkvæmt sértækum verkefnum kennara. Í hvoru tilviki fyrir sig fá nemar að vinna sjálfir með viðfangsefnin og bera ábyrgð á eigin verkefni (learning by doing).
Aðgengi kennara jafnt sem nemenda að námsgögnum verður gefið út án endurgjalds á vefsíðu Landupplýsingalæsis í að minnsta kosti 3 ár eftir útgáfu. Vegna hraðra tæknilegra breytinga í heimi upplýsingatækni verður nauðsynlegt að endurskoða efnið og uppfæra það. Slíkt verður háð kostnaði og öflun fjármagns.
Námsgagnahöfundur býður upp á fyrirlestra og námskeið sé þess óskað. Fyrirlestur kynnir helstu þætti og aðferðir í notkun námsefnisins. Námskeið fer dýpra í notkun landupplýsingahugbúnaðar, tækifæri í notkun landupplýsinga og staðfærslu námsefnis eftir þörfum hvers skóla, fags eða kennara. Námskeið og fyrirlestrar verða boðnir á raunkostnaði og munu jafnvel nýtast höfundi við áframhaldandi uppbyggingu námsefnis í samstarfi við kennara.
Til að óska eftir fyrirlestri eða námskeið má hafa samband við Elínu á netfangi hennar.
Þessi vefsíða og öll verkefni hennar er styrkt af Þróunarsjóði Námsgagna og hefði ekki getað orðið að raunveruleika án þess.

©2022 by landupplýsingalæsi. Proudly created with Wix.com